Ég er búin að vera með svo mikið æði fyrir einhverju djúpsteiktu - hef þó aðalega verið að gúggla og skoða fyrir utan að ég steikti ástarpunga um daginn (og þeir eru bestir með flórsykri yfir). Svo loksins dreif ég mig í að gera ameríska kleinuhringi. Gúgglaði uppskrift og fann eina þar sem ég sá að ég átti allt hráefnið til svo það var bara að hefjast handa. Þetta er tiltölulega fljótleg uppskrift - auðvitað er þetta gerbakstur svo það þarf að gera ráð fyrir hefingartíma en allt annað er fljótlegt.
3 dl mjólk
2,5 tsk þurrger
60 gr sykur
2 egg
110 gr smjör - brætt og kælt.
1 tsk salt
ca 600 gr hveiti
olía til að djúpsteikja
Þunnur glassúr: 280 gr flórsykur, uþb 0,5 dl mjólk, 1/2 tsk vanilludropar.
Hitið mjólkina í potti upp í ca 35°c, bætið uþb helming af sykri út í og þurrgeri og hrærið í. Látið standa í ca 5 mínútur á meðan þið takið þurrefnið til.
Eftir þessar 5 mínútur setti ég eggin ofaní mjólkina og hrærði vel. Öllu er svo blandað saman í hrærivélaskál og hnoðað þar til þetta er orðið þétt og fínt. Bætið hveiti útí eftir þörfum. Deigið er látið hefast í uþb 60 mínútur.
Fletjið deigið svo út í ca 1.5 cm þykkt og skerið út hringi með þar til gerðum hring eða notið glas. Svo er gat skorið út úr miðjunni með minni hring eða skotglasi - allt eftir því hvað til er. Ég hafði t.d. ekki nægilega stórt glas til að skera út stóra hringinn og allt of stóran hring til að skera út gatið. Eftir að hafa skorið út eins og ég gat, tók ég deigið saman og flatti út aftur, passaði að nota ekki mikið hveiti svo það yrði ekki of þurrt. Þegar hér var komið sögu gafst ég upp á glösunum og náði mér í pizzahníf og skar bara lengjur. Hringirnir, "götin" og lengjurnar eru svo látið hefast í uþb. 30 mínútur. Ég setti reyndar "götin" strax í frysti og ætla að prófa að djúpsteikja þau seinna.
Hitið olíu í góðum potti og þegar hún er orðin nægilega heit (passið að hún ofhitni ekki) þá eru hringirnir steiktir í tæplega mínútu hvora hlið.
Kleinuhringjunum er svo dýft ofaní glassúrinn (hann er frekar þunnur) og raðað á bökunarpappír. Einnig er hægt að dýfa þeim ofan í sykur eða flórsykur. Eftir smakksprufur vorum við sammála um að glassúrinn væri bestur. Og stangirnar voru alveg eins á bragðið :-)