Pintrest

Thursday, 6 April 2017

Að djúpsteikja

Mér finnst djúpsteiktur matur góður. Nema kannski sveppir - hef reyndar ekki prófað þá djúpsteikta en þeir eru ábyggilega jafnvondir og öðruvísi matreiddir.
Ég er samt alls ekki oft með djúpsteiktan mat. Svo sjaldan reyndar að ég þarf iðulega að gúggla hvernig best sé að gera þetta. Svo ég ákvað að gera bloggfærslu. Ég djúpsteikti nefnilega kjúkling um daginn sem tókst svo hrikalega vel að ég hugsaði með mér að nú myndi ég sko muna hvað ég gerði. 

Það eru til nokkrar mismunandi útfærslur að deigi til að djúpsteikja úr, ég veit ekki einu sinni hversu margar eða hvað þær allar heita, en ég gúggla yfirleitt "tempura" eða "orly". Oft innihalda deigin sódavatn, malt eða bjór. Ég er búin að prófa allar að hafa allt þetta þrennt en mitt vandamál er að ég á þetta yfirleitt ekki til. Svo finnst mér lítill munur á bragðinu. Hér er eldri bloggfærsla um djúpsteiktan fisk í orly.

Um daginn djúpsteikti ég s.s. kjúkling. Ég ætlaði að hafa kjúkling í súrsætri sósu og mér finnst þá betra að djúpsteikja fyrst, hvort sem ég nota kjúkling eða svínakjöt, því annars verður kjötið svo þurrt.

Í deigið notaði ég
1 bolla hveiti
1 bolla maísmjöl (maizena)
1 tsk lyftiduft
smá salt
örlítil sojasósa - ca 2 tsk
kalt vatn þar til þetta varð eins og grautur. 

Ég skar svo kjúklinginn í passlega litla bita, lét alla bitana í deigið og lét þá liggja þar í ca 10 mínútur eða þar til olían varð nægilega heit.
Það er hægt að nota þetta deig (eða sambærilegt) til að djúpsteikja kjöt, fisk, laukhringi, humar, rækju eða hvað sem þér dettur í hug. 

Ég nota bara hvaða þá ódýru djúpsteikingarolíu sem ég finn. Ég veit svo sem ekki mikið um olíur
annað en að sumar olíur eru betri til djúpsteikingar en aðrar, því þær þola meiri hita. Annað veit ég ekki. 
Ég hef olíuna ekki á hæsta hita sem er 12 á minni eldavél, heldur stilli ég hana á ca 9 - 10. Til að athuga hvort olían sé nægilega heit er hægt að setja brauðbita ofan í og ef olían kraumar strax mikið við það og bitinn verður tiltölulega fljótlega brúnn, en olían orðin heit. Önnur aðferð, sem ég er farin að nota meira, er að stinga sushi prjóni úr tré ofan í botninn á pottinum og ef
það koma margar loftbólur í kringum prjóninn, er olían orðin heit. 

Ég hélt einu sinni að allt sem væri djúpsteikt þyrfti að steikjast við háan hita og í stuttan tíma. Það er vitleysa! Það sjá ég þegar ég fylgdist með víetnamskri kunningjakonu djúpsteikja heimagerðar vorrúllur. Hún skellti þeim ofan í, svo settist hún bara niður! Rúllan hefur ábyggilega verið alveg í 10 mínútur ofaní og varð alveg hrikalega góð. 

Mér finnst alveg rosalega gott að djúpsteikja sushi rúllur. Þá þarf fyrst og fremst að passa að það sem er inni í rúllunum sé hráefni sem má hitna, eins og t.d. humar, rækjur, djúpsteiktur kjúklingur eða grænmeti. Ekki lax, eða annar fiskur. Þegar olían er orðin heit (og þarna nota ég pönnu sem olíu sem nær amk upp að miðri rúllu), velti ég rúllunni upp úr deigi og svo upp úr brauðraspi og steiki svo. Þá verður rúllan svo
stökk og brakandi. Nammi namm!
Þegar olían er svo orðin köld, nota ég trekt og sikti til þess að hella henni ofan í flöskuna og svo er hægt að nota hana nokkrum sinnum. Á endanum fer ég með flöskuna fulla af olíu á gámavöllinn. 

No comments:

Post a Comment