Pintrest

Thursday, 5 August 2021

Geggjað gott brokkolísalat

 Þetta salat er hrikalega gott, bæði eitt og sér og sem meðlæti. Það passar alveg einstaklega vel með grillkjöti. Það er hægt að slumpa í þetta salat bæta við eða minka eftir því hvað hverjum og einum finnst gott. Magnið sem ég gef hér upp er því eiginlega bara viðmið. Þetta salat er ekkert síðra daginn eftir! 

1 dós sýrður rjómi
slatti af majonesi
safi úr 1/2 lime
1 - 2 msk hvítvíns- eða eplaedik
1/2 rauður laukur
10 stk döðlur
1 epli
1 brokkolí - allt notað, líka stilkurinn. 
3 sneiðar beikon.

Steikið beikonið og kælið. Blandið sýrðum rjóma, majonesi, safa úr lime og ediki saman. Allt annað er saxað niður og blandað saman við. Verði ykkur að góðu.

 





Tuesday, 27 July 2021

Heimagert kjötfars

Mig er búið að langa svo í kjötfars en þar sem við búum í Noregi þá fæst það ekkert út í búð. Að vísu fæst kjötfars í búðum rétt fyrir jól en það er eitthvað bragð af því sem mér líkar ekki. Svo ég ákvað að búa það til sjálf. Ég var fyrir löngu búin að fá uppskrift en miklaði þetta svo fyrir mér að ég lét aldrei verða af þessu fyrr en ég sá hakk á tilboði í búðinni okkar. Þetta var blanda af nauta- og svínahakki, eitthvað sem ég kaupi aldrei en ákvað að kaupa tvo bakka fyrst þeir væru á tilboði og prófa loksins að gera kjötfars. 

Næsta skref var að lesa aðrar uppskriftir og þær eru sko fjölmargar! Ég sá því að það væri engin ein rétt aðferð til að búa til kjötfars og því ákvað ég að gera "mína eigin". Ég notaði matvinnsluvél til að mauka allt en það er líka hægt að nota bara hrærivél (skv uppskriftum á netinu) en ég gæti trúað að þá verði farsið aðeins grófara. Þegar ég var búin að blanda öllu saman prófaði ég að steikja smá slummu á pönnu, bara til að smakka þetta til og vá hvað þetta varð bragðmikið og gott! Alveg eins og ég vildi hafa þetta - og því skrifa ég þessa færslu, svo ég gleymi ekki uppskriftinni!

400 gr. hakk (hægt er að nota hvaða hakk sem er í rauninni)
1/2 laukur, fínt saxaður
2 msk hveiti
2 msk maizena eða kartöflumjöl
2 tsk lyftiduft
2 tsk salt
2 tsk svartur pipar
1/2 gulrót, rifin
ca 2 dl mjólk (meira eða minna eftir smekk)

All hráefnið er sett í matvinnsluvél sem er látin ganga í nokkrar mínútur. Úr þessu sauð ég svo kjötbollur með hvítkáli og bræddu smjöri. Þá dýfir maður tveimur skeiðum í soðið vatnið - svo farsið festist ekki við þær, og mótar svo bollur sem settar eru ofan í vatnið. Munið að salta vatnið. Suðan látin koma upp og þegar hefur soðið í ca 5 mínútur er slatti af hvítkáli settur ofaní pottinn og soðið áfram í ca 3 mínútur. Borið fram með kartöflum og bræddu smjöri. 


 

Thursday, 17 June 2021

Chilisulta

 Það eru ábyggilega til fullt af uppskriftum af chilisultu en þetta er sú besta sem ég hef smakkað. Hún er mjög einföld og tiltölulega fljótleg í framkvæmd. Það sem mér finnst best við hana er hvað hún er sterk. Ekki þannig að munnurinn logi en maður finnur alveg fyrir chili bragðinu. 

5 rauð chili með fræjum
1 sæt paprika (eða bara venjuleg) 
3 dl sykur
1 dl eplaedik
1-2 appelsínur (ég nota 1)
2 gelatín blöð (matarlím)

Allt er sett í blandara og keyrt þartil þetta er orðið að mauki. Þá er þetta sett í pott og látið malla í 15 - 20 mínútur. Matarlímið er sett í vatn í ca 5 mínútur og þegar sultan hefur soðið eru það sett útí og hrært saman við. Setjið sultuna strax í krukkur og kælið.

















Sunday, 13 June 2021

Sítrónukaka með eplamauki

 Ég fékk gefinst fullt af heimagerðu eplamauki sem ég bara vissi ekkert hvað ég ætti að gera við. Ég er ekkert sérstaklega hrifin af eplamauki einu og sér svo ég varð að nota það í bakstur. Eftir mjög mikla leit á netinu fann ég loksins uppskrift á þýsku að þessari köku sem mér leist vel á og í dag ákvað ég að prófa hana. Hún er mjög einföld í gerð en það tekur nokkuð langan tíma að baka hana. Uppskriftina fann ég hér og þar er líka uppskrift af eplamauki sem ég gerði ekki en ég get látið uppskrifina af því fylgja hér. 


Eplamauk
1 kg epli
40 gr. smjör

Eplin eru skræld og skorin í grófa bita án kjarnans. Bræðið smjörið og bætið eplunum út í. Sjóðið eplin í smjörinu við vægan hita, með loki ofaná, í ca 15 mínútur þar til þau eru orðin mjög mjúk. Þá er þessu pressað í gegnum sigti og voilá eplamaukið er tilbúið! Það ætti að verða til ca 600 gr af eplamauki úr þessu. Kælið. 

Sítrónukaka:
180 gr. mjúkt smjör
300 gr. hveiti
1 tsk. lyftiduft
160 gr. sykur
1 tsk. vanillusykur
smá salt
1 tsk. fínt rifinn sítrónubörkur (ég setti reyndar ábyggilega heila matskeið og það var rosalega gott)
smá kanill
1 egg. 

Hitið ofinn í 180°c. Allt sett í skál og hnoðað vel í vél. Bökunarpappír er settur á botninn í smelluformog ca helmingnum af deiginu þrýst ofan í botninn og uþb 2 cm upp kantinn. Það er s.s. búinn til kantur fyrir eplamaukið þannig að það leki ekki út við formið. Öllu maukinu er helt yfir botninn og jafnað út. Restinni af deiginu er "sáldrað" yfir, ég keip bara bita og setti hér og það þangað til að ég var búin með allt deigið. Þetta er svo bakað í miðjum ofni í ca 50 mínútur. Þegar kakan er svo orðin köld er gott að sáldra flórsykri yfir.

 Gott að bera þeyttan rjóma með þessari dásemd. 



Sunday, 14 March 2021

Kúmenkringlur

 Ég fékk óbeina áskorun... eða ég tók því sem áskorun án þess að viðkomandi hefði nokkurn tíman nefnt mig á nafn, að baka kúmenkringlur. Hér í Noregi finnst mér stundum vanta eitthvað bakkelsi sem er ekki dísætt og ekki bara brauð. Kúmenkringlur koma þar sterkar inní því að ekki bara eru þær góðar eintómar heldur alveg dásamlegar með smjöri og osti, eða bara með grænmeti og soðnu eggi á milli. Sem sagt dásamlegar í nesti. Svo ég hóf að gúggla og ráðfæra mig við bakara því mig langaði bæði í mjúkar og harðar kringlur.
En þar sem að allar uppskrftir sem ég fann á netinu voru með smjöri og

mjólk og mig langaði til að hafa þær vegan, þá ákvað ég bara að trúa bakaranum sem sagði að þetta væri bara "einföld brauðuppskrift í grunninn" og ákvað því að slumpa! Ég slumpa jú alltaf þegar ég baka focaccia brauð og þetta gæti nú ekki verið mikið flóknara. Það sem er mikilvægast - að mínu mati - er að þær séu frekar saltar en sætar og með miklu kúmenbragði. Svo ég slumpaði "meðvitað" þ.e.a.s. ég lagði á minnið hvað ég setti út í svona í tilfelli að þær yrðu góðar! Og OMG hvað þær urðu góðar! Alveg eins og ég vil hafa þær... pínu saltar og með miklu kúmenbragði. Það hefur hins vegar gengið hægt að þurrka þær svo þær verði harðar - en það hlýtur að koma. 

Uppskriftin gefur 7 kringlur ef maður hefur þær um 125 - 130 gr. 


500 gr hveiti
1 bréf þurrger
2 tsk sykur
1.5 tsk salt
2 msk olía
ca 15 gr kúmen (ca 3 msk)
volgt vatn - ég mældi það ekki, en grunar að það hafi verið um 3 dl. 

Þurrefnunum er blandað saman í skál og olíu og volgu vatni helt saman við. Ég nota hrærivél til að hnoða og læt hana ganga í ca 10 mínútur. Setjið svo rakan klút yfir skálina og látið deigið hefast í ca klst. 


Næst er deigið sett á borð og skorið í bita. Ég ákvað að vikta hvern bita svo kringlurnar yrðu jafnar og notaði ég ca 130 gr fyrir hvern bita. Rúllið út í lengu og tengið saman í hring. Gott er að hafa pínu vatn við hliðina til að hjálpa til við að rúlla út (það gengur hægar ef mikið hveiti er á borðinu) sem og við að festa endana saman. Það er samt ekkert því til fyristöðu að búa eitthvað annað til t.d. bara lengjur, fléttu, bollur eða horn. 

Kringlurnar eru látnar hefast í 20 - 30 mínútur áður en þær eru bakaðar í ofni á 220°c í ca 8 mínútur. 




Ef þið viljið hafa kringlurnar harðar þá er betra að baka þær lengi á 160°c þar til þær fá svona fallegan ljósbrúnan lit svo eru þær látnar standa á borði þar til þær þorrna - eða þurrkaðar í ofni á ca 50°c í einn klst. Þið þurfið kannski aðeins að prófa ykkur áfram með þetta - en aðalmálið er bara að þær þorrni alveg í gegn. 

Ég prófaði líka að setja þær í soðið vatn áður en þær eru bakaðar - bara til þess að prófa þetta líka. Það er ekki mikill munur á þeim, þær verða pínu seigar við þetta en alveg jafn góðar. Þetta er pínu meira vesen svo ég held að ég nenni þessu ekki oftar. Og þær verða fallegri þessar sem ekki eru soðnar. 

Soðin kringla er til hægri, venjuleg er til vinsti.

 



Sunday, 28 February 2021

Amerískir kleinuhringir

 Ég er búin að vera með svo mikið æði fyrir einhverju djúpsteiktu - hef þó aðalega verið að gúggla og skoða fyrir utan að ég steikti ástarpunga um daginn (og þeir eru bestir með flórsykri yfir). Svo loksins  dreif ég mig í að gera ameríska kleinuhringi. Gúgglaði uppskrift og fann eina þar sem ég sá að ég átti allt hráefnið til svo það var bara að hefjast handa. Þetta er tiltölulega fljótleg uppskrift - auðvitað er þetta gerbakstur svo það þarf að gera ráð fyrir hefingartíma en allt annað er fljótlegt.  

3 dl mjólk
2,5 tsk þurrger
60 gr sykur

2 egg
110 gr smjör - brætt og kælt. 
1 tsk salt
ca 600 gr hveiti

olía til að djúpsteikja

Þunnur glassúr: 280 gr flórsykur, uþb 0,5 dl mjólk, 1/2 tsk vanilludropar. 

Hitið mjólkina í potti upp í ca 35°c, bætið uþb helming af sykri út í og þurrgeri og hrærið í. Látið standa í ca 5 mínútur á meðan þið takið þurrefnið til. 

Eftir þessar 5 mínútur setti ég eggin ofaní mjólkina og hrærði vel. Öllu er svo blandað saman í hrærivélaskál og hnoðað þar til þetta er orðið þétt og fínt. Bætið hveiti útí eftir þörfum. Deigið er látið hefast í uþb 60 mínútur. 

Fletjið deigið svo út í ca 1.5 cm þykkt og skerið út hringi með þar til gerðum hring eða notið glas. Svo er gat skorið út úr miðjunni með minni hring eða skotglasi - allt eftir því hvað til er. Ég hafði t.d. ekki nægilega stórt glas til að skera út stóra hringinn og allt of stóran hring til að skera út gatið. Eftir að hafa skorið út eins og ég gat, tók ég deigið saman og flatti út aftur, passaði að nota ekki mikið hveiti svo það yrði ekki of þurrt. Þegar hér var komið sögu gafst ég upp á glösunum og náði mér í pizzahníf og skar bara lengjur. Hringirnir, "götin" og lengjurnar eru svo látið hefast í uþb. 30 mínútur. Ég setti reyndar "götin" strax í frysti og ætla að prófa að djúpsteikja þau seinna. 

 Hitið olíu í góðum potti og þegar hún er orðin nægilega heit (passið að hún ofhitni ekki) þá eru hringirnir steiktir í tæplega mínútu hvora hlið. 

Kleinuhringjunum er svo dýft ofaní glassúrinn (hann er frekar þunnur) og raðað á bökunarpappír. Einnig er hægt að dýfa þeim ofan í sykur eða flórsykur. Eftir smakksprufur vorum við sammála um að glassúrinn væri bestur. Og stangirnar voru alveg eins á bragðið :-)

Wednesday, 3 February 2021

Grjónagrautur í ofni og lummur úr afgöngum

 Ég var alveg hætt að elda grjónagraut því að ég hreinlega nennti því ekki, nennti ekki að standa yfir pottinum að hræra í stöðugt í klukkutíma. Svo brann hann alltaf við hvað sem ég gerði. Svo ég hætti. Þar til að ég las að maður geti eldað hann í ofni. Það tók mig nokkrar tilraunir til að finna hvað hentaði mér best og núna er ég bara "oft" með grjónagraut (það er amk 4x á ári). Gerið ráð fyrir amk klukkutíma og passið að pottur og lok megi fara í ofn. Ef það er ekki til er pottþétt hægt að láta suðuna koma upp í potti og hella svo grautnum í eldfast mót og setja álpappír yfir. Ég hef þó ekki prófað það. 

Ég mæli reyndar ekkert alveg alltaf nákvæmlega, þið þurfið kannski bara að prófa ykkur áfram með hvaða magn hentar best. svo er það líka smekksatriði hvað maður vill hafa hann þykkan. Mín uppskrift miðast við 4 fullorðna.

2.5 - 3 dl grautarhrísgrjón
ca 1,3 l. mjólk
smá salt
kannski smá sykur

Kveikið á ofninum á 100 gráður. Allt hráefnið er sett í pott og á hellu. Suðan er látin koma hægt upp og hrærið annað slagið í á meðan. Athugið að því hærri sem hitinn er því meiri líkur er að mjólkin brenni við botninn. Um leið og mjólkin fer að sjóða er potturinn með loki á, settur inn í heitan ofninn. Oftast er grauturinn tilbúinn eftir hálftíma... stundum þarf hann aðeins lengri tíma. Fylgist líka með að mjólkin klárist ekki (svona ef þið mælið hana ekki nákvæmlega). Annars er bara að bæta mjólk útí eftir þörfum. Það er óþarfi að hræra í grautnum á meðan hann er í ofninum. 

Úr afganginum - ef einhver er - geri ég alltaf lummur og nota mikið "slump" aðferðina en hér er uppskrift sem ég styðst við:

1 bolli hveiti
1 tsk lyftiduft
1 - 2 egg (ég nota alltaf 2)
1 tsk kardimommudropar
smá mjólk 
ca 1 - 2 bollar grjónagrautur 
rúsínur 

Allt sett í skál og hrært saman. Ég nota stóra skeið til að setja deigið á pönnu og steiki upp úr blöndu af smjöri og smá olíu á miðlungshita. Um leið og lummurnar eru tilbúnar set ég smá púðursykur ofaná en það er nú bara eitthvað sem ég vandist á að gera. Það er alveg hægt að hafa eitthvað annað; strásykur, flórsykur, sultu eða bara ekkert.