Pintrest

Saturday, 21 March 2020

Saltfiskréttur

Ég skil eiginlega ekkert í því afhverju við Íslendingar notum ekki saltfisk meira! Ég smakkaði t.d. djúpsteiktan saltfisk í Portúgal í vetur og fannst hann alveg hrikalega góður. Ég ætla allavega að vera duglegri að elda saltfisk í allskonar útgáfum. Kannski við mismikla hrifningu heimilisfólks, en það verður að hafa það!

Þennan saltfiskrétt fékk ég hjá gamalli vinkonu fyrir mörgum árum síðan en hef bara eldað hann
ca þrisvar sinnum síðan kannski mest vegna þess að ég er eiginlega sú eina á heimilinu sem finnst hann rosalega góður.

Í dag prófaði ég að setja hann í eldfast mót og rifinn ost ofaná en það er algjör óþarfi.

Mér finnst best að vera með útvatnaðan saltfisk en það er hægt að hafa léttsaltaðan fisk,
næstursaltaðan eða bara nýjan fisk. Ég hef líka alltaf bara slumpað í þennan rétt en í kvöld lagði ég á minnið hvað ég setti mikið út í. Þið setjið svo bara meira eða minna eftir smekk.

1 stór laukur eða 2 litlir
1 paprika (notaði rauða í kvöld)
1 meðalstór gulrót
1-2 hvítlauksgeirar
1 dós hakkaðir tómatar
2 dl rjómi
400 gr útvatnaður saltfiskur
salt og pipar
smá olía til steikingar

Skerið lauk og papriku í grófa bita og gulrót í sneiðar. Steikið á pönnu í smá olíu þar til þetta mýkist aðeins. Bætið þá pressuðum hvítlauk út í og steikið smá til viðbótar. Bætið svo við hökkuðum tómötum og rjóma og smakkið til með salti og pipar. Hér skiptir líka máli hvernig fisk þið eruð með. Ef notaður er saltfiskur þá þarf ekki mikið salt.
Fiskurinn er skorinn í litla bita og bætt út í. Látið malla í nokkrar mínútur við vægan hita. Rétturinn er nú tilbúinn en ef þið viljið má hella honum í eldfast mót, setja rifinn ost ofaná og inn í 200°c heitan ofn þar til osturinn er bráðnaður.

Með þessu er gott að bera fram soðnar kartöflur og hvítlauksbrauð.



No comments:

Post a Comment