Pintrest

Sunday, 30 August 2020

Eplapæ... eða heitur eplaréttur


Það er kannski ekki rétt að kalla þetta pæ... eða böku. Þetta er meira svona heitur eplaréttur. Mjög góður og einfaldur að gera. 

Við erum nefnilega með eplatré úti í garði og það er hálf asnalegt að reyna ekki að nota eplin - þau sem eru heil þ.e.a.s., og það eru þau ekki öll get ég sagt ykkur. Þetta eru ágæt epli, þétt en svolítið súr og ég get alls ekki borðað súr epli - ekki einusinni þó þau séu bara smá súr svo ég verð að nota þau í bakstur. En þá kemur vandamálið að mér finnst bökuð epli ekkert sérstaklega góð heldur! Vandast þá málið. Ég gerði alveg ágæta eplaköku um daginn - kakan sjálf var fín en ég hefði viljað bara sleppa eplunum sem voru ofaná. 


En þessi eplaréttur er góður og klikkar aldrei. Mjög einfaldur. Skil ekki afh

verju ég geri hann ekki oftar. Það breytist kannski núna með þetta fína eplatré í garðinum. 

Ca 6 epli eru afhýdd, hreinsluð og skorin niður í bita.

Skerið líka niður rjómasúkkulaði eða notið súkkulaðibita (eða suðusúkkulaði) og geymið þar til síðar.

Blandið saman í skál: 
1 bolli hveiti
1 bolli púðursykur
1 bolli kókosmjöl
1 tsk kanill

Blandið öllu þessu saman í skál og hellið svo í eldfast form. 

Þetta er svo bakað í ca 30 mínútur við 180°c. Best að fylgjast með, þetta á að verða pínu brúnt en ekki brenna. 

Um leið og rétturinn er tilbúinn er hann tekinn út úr ofninum og súkkulaðinu stráð yfir og látið standa í smástund svo það bráðni ofaná. 

Þetta er svo borðað með þeyttum rjóma eða ís á meðan rétturinn er ennþá heitur.  

Tuesday, 2 June 2020

Sítrónusmjör (Lemon curd)

Ég er sjálf ekkert fyrir sultur, marmelaði eða neitt svoleiðis en svo smakkaði ég einu sinni sítrónusmjör og jeminn eini hvað það er gott! 
Í gær var til heimabakað súrdeigsbrauð og þar sem ég sat og borðaði það helltist yfir mig löngun í sítrónusmjör. Því var svo reddað í dag. Í hefðbundnu sítrónusmjöri eru egg en þar sem elsti uppáhaldssonurinn er vegan, þá vildi ég að hann gæti líka borðað þetta. Það er jú hann sem er súrdeigsbrauðbakstur snillingurinn á heimilinu. Uppskriftina fann ég á netinu á síðu sem heitir It Doesn't Taste Like Chicken og ég mæli 100% með henni! 



100 gr. sykur         
1 msk maíssterkja
118 gr. vegan mjólk (t.d. soja eða möndlu. Ég notaði Oatly)
65 gr. ferskur sítrónusafi (ca 2 sítrónur)
2 tsk. rifinn sítrónubörkur (af ca 1 sítrónu)
1/8 tsk turmerik (valfrjálst, er bara fyrir litinn)

Blandið saman sykri og maíssterkju og pískið saman til að ná sem mestum kekkjum úr sterkjunni. Blandið öllu hinu saman við og hitið við miðlungshita og hrærið stöðugt í á meðan. Ég hitaði þar til þetta fór að sjóða, þá tók ég af hellunni, það tók ca 5-7 mínútur. Hellið strax í krukku. Þetta geymist í kæli í amk 1 viku (Ég hef ekki prófað að loka krukkunni strax og athuga hvort það geymist lengur, svona eins og sultur gera).

Þetta er dásamlega gott með kexi, brauði, með ostum eða bara ofan á köku. 
 



Monday, 25 May 2020

Rabarbarabaka

Það er löngu tímabært að setja þessa dásemd á þetta blogg! Þessa böku geri ég amk einu sinni á ári. Ég tek alltaf mikinn rabarbara á vorin og sulta og eða frysti og það er einmitt svo gott að eiga
niðurskorinn rabarbara fyrir þessa böku í frystinum. Þetta er bragðgóð og einföld baka en hún þarf svolítið langan tíma í ofninum. En þá hefur maður bara góðan tíma til að skjótast út í búð eftir rjóma eða ís á meðan. 

400 gr. rabarbari, fremur smátt skorinn er settur í eldfast mót. 

Ég reyndar vikta hann aldrei, set bara passlega mikið í mótið. 
2 stk egg
1 dl hveiti
2 1/2 dl sykur
Egg og sykur þeytt mjög vel saman þar til verður létt og ljóst. Blandið síðan hveitinu varlega saman við. Þessu er síðan hellt yfir rabarbarann




Ofaná:
1 3/4 dl hveiti
1 1/2 dl púðursykur
50 gr smjör

Smjör og sykur hrært vel saman og svo bætið þið hveitinu saman við. Þetta fer síðan ofan á deigið.


Bakað í 45 mínútur við 200°c. Látið aðeins kólna (ef þið getið beðið) og borðið svo með þeyttum rjóma eða ís... eða bara því sem þið viljið.


Saturday, 21 March 2020

Saltfiskréttur

Ég skil eiginlega ekkert í því afhverju við Íslendingar notum ekki saltfisk meira! Ég smakkaði t.d. djúpsteiktan saltfisk í Portúgal í vetur og fannst hann alveg hrikalega góður. Ég ætla allavega að vera duglegri að elda saltfisk í allskonar útgáfum. Kannski við mismikla hrifningu heimilisfólks, en það verður að hafa það!

Þennan saltfiskrétt fékk ég hjá gamalli vinkonu fyrir mörgum árum síðan en hef bara eldað hann
ca þrisvar sinnum síðan kannski mest vegna þess að ég er eiginlega sú eina á heimilinu sem finnst hann rosalega góður.

Í dag prófaði ég að setja hann í eldfast mót og rifinn ost ofaná en það er algjör óþarfi.

Mér finnst best að vera með útvatnaðan saltfisk en það er hægt að hafa léttsaltaðan fisk,
næstursaltaðan eða bara nýjan fisk. Ég hef líka alltaf bara slumpað í þennan rétt en í kvöld lagði ég á minnið hvað ég setti mikið út í. Þið setjið svo bara meira eða minna eftir smekk.

1 stór laukur eða 2 litlir
1 paprika (notaði rauða í kvöld)
1 meðalstór gulrót
1-2 hvítlauksgeirar
1 dós hakkaðir tómatar
2 dl rjómi
400 gr útvatnaður saltfiskur
salt og pipar
smá olía til steikingar

Skerið lauk og papriku í grófa bita og gulrót í sneiðar. Steikið á pönnu í smá olíu þar til þetta mýkist aðeins. Bætið þá pressuðum hvítlauk út í og steikið smá til viðbótar. Bætið svo við hökkuðum tómötum og rjóma og smakkið til með salti og pipar. Hér skiptir líka máli hvernig fisk þið eruð með. Ef notaður er saltfiskur þá þarf ekki mikið salt.
Fiskurinn er skorinn í litla bita og bætt út í. Látið malla í nokkrar mínútur við vægan hita. Rétturinn er nú tilbúinn en ef þið viljið má hella honum í eldfast mót, setja rifinn ost ofaná og inn í 200°c heitan ofn þar til osturinn er bráðnaður.

Með þessu er gott að bera fram soðnar kartöflur og hvítlauksbrauð.



Thursday, 19 March 2020

Mango terta

Þessi er bara guðdómleg!

Fyrsta vegan tertan sem ég geri. Ég elska mango en ég held að þessi sé góð með hvaða ávöxtum sem er og ég bara varð að setja hana hér inn á bloggið svo ég týndi henni ekki því ég er ákveðin í að gera hana aftur þegar jarðaberjatímabilið byrjar.

Ég fékk uppskriftina héðan en breytti henni örlítið svo ég skrifa mína útgáfu hér. Upprunalega útgáfan er glútenlaus en mín er það ekki.

Botninn:
 26 gr kókosmjöl
125 gr hveiti
2 msk (30 gr) kókosolía
2 msk (30 gr) hlynsíróp
1/4 tsk salt

Fylling:
ca 2 dl jurtarjómi t.d. frá Alpro
2 msk hlynsíróp (meira eða minna eftir smekk)
1 tsk vanilludropar
2 þroskuð mangó

Aðferð:
Hitið ofninn í 170°c.
Hitið kókosolíu og hlynsíróp saman. Setjið allt í matvinnsluvél og maukið saman. Deigið er frekar þurrt en það á að vera hægt að klessa því saman á milli fingranna.
Það er svo sett í bökuform, þrýst niður með fingrunum og upp með hliðunum. Passið að hafa nægilega lítið form (ca 9") nú eða annars bara gerið þið bara meira af botninum.
Botninn er svo bakaður í ofni í 12 - 16 mínútur. Því næst er hann tekinn úr forminu og kældur alveg.

Fyllingin:
Þeytið rjómann og bragðbætið með sýrópi og vanilludropum. Skerið mangóið niður í þunnan sneiðar. Rjóminn er settur á botninn og svo raðið þið mangósneiðunum í hring, byrjið á stæstu sneiðunum og setjið yst á tertuna. Raðið svo inn að miðju og endið á minnstu sneiðunum þar.