Mánudagsýsa á Bessastöðum
- 2 dl hrísgrjón
- nýtt ýsuflak
- rækjur, humar eða skelfisktegundir eftir smekk, efnum og ástæðum.
- 1 dós Campbell's sveppasúpa
- 4 msk majones
- 2 tsk Karrí
- Tæplega einn peli rjóma
- rifinn ostur
- Hrísgjónin soðin og látin í botn á eldföstu móti. Fiskurinn er soðinn og honum raðað yfir grjónin í smábitum. Þá er skelfiskurinn settur yfir. Vökvinn síaður frá sveppunum og þeim raðað yfir. Campbell's súpan og majonesið hrært með karríinu, sveppasoðinu og rjómanum. Þessu er hellt fyrir fiskinn og að lokum er rifnum ostinum stráð yfir. Bakað í 180°c heitum ofni þangað til osturinn brúnast!
En þar sem við búum í útlöndum, þá hefur verið erfitt að finna hráefnið í þennan rétt - þá er ég aðalega að tala um Campbell's súpuna. Er búin að leita út um allt en finn hana ekki. Svo ég varð að gera tilraunir og eftir ca 3 er ég komin með þetta! Það er samt pínu asnalegt, af okkur hér, að kalla þennan rétt Mánudagsýsu á Bessastöðum því að ekki búum við á Bessastöðum, ég elda hann sjaldnast á mánudögum og ég nota aldrei ýsu heldur alltaf þorsk.
Ég er búin að vera að plana að blogga um þennan rétt í nokkurn tíma en hef alltaf gleymt að taka mynd af honum! Svo þetta fær að standa myndalaust þar til ég smelli af mynd næst þegar ég geri hann.
Til að gera sósuna nota ég:
- 1 dós Philadelphia ost
- 2 tsk karrí
- 2-4 msk majones
- 4 msk grísk jógúrt eða hrein jógúrt eða súrmjólk eða sýrðan rjóma.
- slatta af matreiðslurjóma - eða mjólk
- salt og pipar
Aðalmálið er svo að sósan verði passlega þykk - álíka þykk og súrmjólk. Ég set svo soðin hrísgrjón í botn á eldföstu móti. Raða svo HRÁUM þorski yfir (hér er hægt að nota soðinn fisk og gefur það því auga leið að maður gæti fryst afganga af soðnum fiski og notað í réttinn þegar maður vill), helli svo sósunni yfir og strái rifnum osti yfir allt.
Ég nota ekki rækjur, skelfisk eða sveppi í þetta vegna þess einfaldlega að mér finnst það einfaldlega ekki gott.
Formið fer svo inn í ofn í ca 30 mínútur. Ferskt salat eða nýbakað brauð/rúgbrauð er tilvalið meðlæti með þessum rétti.
No comments:
Post a Comment