Pintrest

Friday, 9 February 2018

Kalt pastasalat með kjúkling og beikoni

Ég eldaði heilan kjúkling í gær. Gerði reyndar þennan hér:  Franskur heilsteiktur kjúklingur með rósmarín, hvítlauk og sítrónum, sem er alltaf góður. Það varð alveg heilt læri afgangs, plús smá kjöt hér og þar sem hægt var að tæta af. Semsagt eiginlega alveg heill hellingur. Og þá var bara að finna út úr hvað best væri að gera úr þessu. Mig langaði allra mest í svona "salatbar fíling", þ.e. fullt af einhverju samsulli ásamt pasta með kaldri sósu. En nú voru góð ráð dýr því ég kann enga svoleiðis uppskrift. Eftir mikið gúggl ákvað ég að prófa mig bara áfram. Úr varð stórkostlega gott pastasalat með ýmsu góðgæti. Svo gott að ég ákvað að ég yrði bara að skrifa þetta niður áður en ég gleymdi uppskriftinni. Sem er reyndar varla uppskrift því þetta snerist um að slumpa og smakka.

Sósan varð því svona:

ca 3 msk grísk jógúrt
ca 2 msk majones
ca 1 tsk hunang
1/2 tsk dijon sinnep
salt
pipar
oregano
timian
hvítlauksduft
hvítlaukssalt
steinselja

Öllu hrært saman og látið standa smá.

Pasta er svo soðið og kælt. Blandið svo sósunni saman við kalt pastað. Saman við þetta setti ég svo beikon, kjúkling, niðurskorna skinku og alla 5 kirsuberjatómatana sem ég fann í ísskápnum. Þetta var svo sett á disk ásamt salatblöndu, spínati, papriku, gúrku og rauðlauk. Hefði verið svo alveg guðdómlegt að hafa fetaost með - en það fattaðist ekki fyrr en við vorum byrjuð að borða! Man eftir því næst.

No comments:

Post a Comment