Líkt og á Íslandi er lambakjötstímabilið núna í Noregi, og sjálfsagt víðar. Kjöt er á tilboði í mörgum búðum og því er alveg upplagt að skella í eina kjötsúpu. Smá ábending að ef þið eigið ekki til nægilega stóran pott þá er upplagt að kíkja á nytjamarkaði. Ég fann einn 10 lítra pott í gær með
loki og fékk hann á 20 NOK.
Uppskriftin hér er úr bókinni Matur og Drykkur eftir Helgu Sigurðardóttur. Algjör biblía eldhúsins! Það er bókstaflega allt í þessari bók! Já eða svo gott sem.
Kjötsúpa
3/4 - 1 kg lambakjöt
2 - 2 1/2 l. vatn
1 1/2 msk salt
30 g hrísgrjón
1/2 kg gulrófur
250 g kartöflur
150 g hvítkál
250 g gulrætur
1 msk söxuð steinselja
1 laukur eða blaðlaukur.
Kjötið má hafa í smáum bitum - eða heilum eins og mér líkar það best. Soðið í 25 mínútur (lengur ef bitarnir eru stórir). Grjónin eru þvegin úr köldu vatni og látin út í og soðið áfram í 20 mínútur. Grænmetið er hreinsað og skorið niður í þægilega munnbita og sett út í súpuna síðustu 20 mínúturnar. Saltað meira ef þörf þykir.
Í staðinn fyrir hrísgrjón má líka nota bygggrjón (45 - 50 mín í suðu) eða hafragrjón (5- 10 mín í suðu).
Ef það verður afgangur er gott að skera kjötið niður í passlega bita, blanda því saman við og annað hvort hita upp í næstu máltíð eða setja í ílát (box eða zip-lok poka) og frysta.
No comments:
Post a Comment