Pintrest

Sunday, 29 September 2019

Íslensk kjötsúpa

Við erum sennilega flest öll vön að gera kjötsúpu með því að nota súpujurtir en það er bara algjörlega ónauðsynlegt. Líklega hefur staðan einhverntíman verið þannig að ekki var búið að finna upp á "súpujurtum" í poka! Þetta er nú bara ágiskun hjá mér :-)

Líkt og á Íslandi er lambakjötstímabilið núna í Noregi, og sjálfsagt víðar. Kjöt er á tilboði í mörgum búðum og því er alveg upplagt að skella í eina kjötsúpu. Smá ábending að ef þið eigið ekki til nægilega stóran pott þá er upplagt að kíkja á nytjamarkaði. Ég fann einn 10 lítra pott í gær með
loki og fékk hann á 20 NOK.

Uppskriftin hér er úr bókinni Matur og Drykkur eftir Helgu Sigurðardóttur. Algjör biblía eldhúsins! Það er bókstaflega allt í þessari bók! Já eða svo gott sem.

Kjötsúpa
3/4 - 1 kg lambakjöt
2 - 2 1/2 l. vatn
1 1/2 msk salt
30 g hrísgrjón
1/2 kg gulrófur
250 g kartöflur
150 g hvítkál
250 g gulrætur
1 msk söxuð steinselja
1 laukur eða blaðlaukur.

Kjötið má hafa í smáum bitum - eða heilum eins og mér líkar það best. Soðið í 25 mínútur (lengur ef bitarnir eru stórir). Grjónin eru þvegin úr köldu vatni og látin út í og soðið áfram í 20 mínútur. Grænmetið er hreinsað og skorið niður í þægilega munnbita og sett út í súpuna síðustu 20 mínúturnar. Saltað meira ef þörf þykir.
Í staðinn fyrir hrísgrjón má líka nota bygggrjón (45 - 50 mín í suðu) eða hafragrjón (5- 10 mín í suðu).


Ef það verður afgangur er gott að skera kjötið niður í passlega bita, blanda því saman við og annað hvort hita upp í næstu máltíð eða setja í ílát (box eða zip-lok poka) og frysta.