Pintrest

Friday, 19 May 2017

Kókosbollur / Flødeboller / Skumboller

Ummm, nammi namm hvað þetta eru góðar bollur! Oft finnst mér kókosbollur vera allt of sætar þannig að maður fær bara ógeð eftir eina en þessar eru það ekki. Ég gúgglaði bæði á íslensku, dönsku og norsku, las margar uppskriftir, fékk uppskrift og ráðleggingar frá gömlum skólabróður sem er kokkur og lét loks vaða! Og sé sko ekki eftir því. Í botninn notaði ég kransakökumassa í rúllu. Þá rúllaði ég rúllunni aðeins til að gera hana þynnri og skar svo litlar skífur sem ég bakaði. Það væri líka hægt að nota öðruvísi marsipan (eða það sama), strá flórsykri á borð, fletja marsipanið út og skrera út litla hringi - en því nennti ég alls ekki! Hin aðferðin virkaði líka fínt.

Uppskriftin er því svohljóðandi:

Botn:
400 gr marsipan skorið niður eða stungið út. Bakað við 180°c í ca 7 mínútur.

Fylling:
250 g sykur
75 ml vatn
110 g glykósasýróp (ég notaði frá Dr. Oetker, það kemur í túpum)
140 g gerilsneiddar eggjahvítur

Hjúpur:300 - 400 gr súkkulaði (fer svolítið eftir hversu mikið þið þurfið að smakka áður en það er brætt ;-) )

Eggjahvíturnar eru settar í skál en allt hitt er sett í pott og hitað rólega þar til fer að sjóða. Hér sögðu allar uppskriftir að maður ætti að vera með sykurhitamæli sem ég á ekki til og mér datt ekki til hugar að fara að kaupa fyrir eina uppskrift svo ég ákvað að vera bara óþekk og hunsa þetta ráð! Ef þið eigið hins vegar mæli - eða viljið ekki vera óþekk - þá var talað um að hita þetta upp í 117 gráður. Ég lét þetta bara sjóða í nokkrar mínútur, ég veit ekki, 3-4, allavega þar til sykurinn var alveg uppleystur. Svo er potturinn tekinn af hellunni og lögurinn aðeins látinn kólna - ekki mikið samt. Þá er kominn tími til að stífþeyta eggjahvíturnar. Þegar þær eru orðnar stífar er heitum sykurleginum hellt í mjórri bunu ofaní á meðan hrærivélin þeytir á fullum styrk. Þetta tekur auðvitað smá tíma og það má alls ekki stoppa hrærivélina á meðan því þá falla eggjahvíturnar. Þegar allur lögurinn er kominn saman við, haldið áfram að hræra í ca 5-7 mínútur. Þá er þetta tilbúið.

Það má líka alveg setja eitthvað bragðefni saman við, t.d. vanilludropa, nú eða piparduft! Já eða fínt saxaðan lakkrís. Ég veit samt ekki hvort massinn sé nægilega þéttur til að halda lakkrískurli uppi, en það verður sko prófað næst. Ein uppskriftin sem ég las talaði um vanillustöng og fræ saman við sykurlöginn í pottinum og stangirnar veiddar uppúr áður en maður hellir saman við eggjahvíturnar.

Jæja, þær húsmæður sem eiga til fansí rjómasprautu nota hana að sjálfsögðu, við hinar notum bara plastpoka. Gumsinu er þannig sprautað ofan á kexbotnana og svo er þetta látið standa í amk sólarhring til að þurrka gumsið. Sé ekki tími til að bíða má skella þessu í heitan ofn í smástund til að flýta fyrir þurrkun.

Við að hjúpa held ég að það sé hægt að nota nánast hvaða súkkulaði sem er. Ég keypti nú bara ódýrasta bökunarsúkkulaðið sem ég fann, 2 plötur ljósar og 2 plötur dökkar og bræddi saman. Það sem ég hefði viljað gera er að bæta út í smá palmín- eða kókosfeiti til að þynna súkkulaðið. Það geri ég sko næst. Ég notaði skeið til þess að ausa súkkulaðinu yfir bollurnar sem ég hélt fyrir ofan skálina og svo stráði ég kókos strax yfir.

Bollurnar voru bestar þegar þær voru búnar að standa smá stund.










Thursday, 18 May 2017

Brauðstangir / Grissini

Þegar við bjuggum í Danmörku þá keyptum við oft snakk sem samanstóð af litlum brauðstöngum og osti til að dýfa ofaní. Hrikalega gott. Að mig minnti. Um síðustu helgi keypti ég svona aftur og þetta er jú, ennþá gott sem ég skil ekki alveg því þetta er nánast bragðlaust! Samt eitthvað við þetta. Svo ég fór að pæla að það væri nú kannski ekkert svo mikið mál að búa þetta til. Ég átti jú til mjög góðan, hreinan smurost í ísskápnum. Eftir smá gúggl datt ég niður á þessa fínu uppskrift. Þessar brauðstangir eru afskaplega auðveldar og fljótlegar. Og mjög góðar!

1 bolli heitt vatn
1 bréf þurrger
1 tsk sykur
2 msk olía
hveiti
Þessu öllu er hrært saman í skál. Ég mældi ekki hveitið heldur setti bara þartil að þetta varð eins og grautur. Plast er sett yfir skálina og þetta látið hefast í einhverja stund.

1 tsk salt
hveiti - setjið bara nægilega lítið í einu til að sjá hvenær það er tilbúið. En samanlagt er þetta líklega um 1,5 bolli af hveiti.

Krydd að eigin vali. Ég er búin að prófa að setja ekkert krydd, hvítlauksduft og sterkt pizzakrydd. Það síðasta var best.

Þessu öllu er nú hnoðað saman og látið hefast.  Ég bjó svo til þykka rúllu og skar alltaf svipað stóran bút í einu til að rúlla út í lengju. Mér fannst best að rúlla bara milli handanna - eftir að hafa prófað ýmsar aðferðir. Passið bara að hafa þær svipaðar að þykkt svo þær brenni síður. Lengjurnar eru svo settar á bökunarpappír og ég hafði stráð salti á pappírinn svo saltið festist frekar við stangirnar. Annars væri hægt að pensla þær með vatni, mjólk eða eggi til að láta festast betur við. Hér væri hægt að strá ýmsu yfir svosem salti, birkifræjum, sesamfræjum, rifnum osti, parmesan osti eða kryddi.

Bakið við 200°c í ca 10-15 mínútur. Hér þarf að passa að a) gleyma þeim ekki í ofninum (!!!) b) þær brenni ekki c) að hafa þær samt nógu lengi til að þær verði þurrar og stökkar alveg í gegn.

Þetta er snilldarsnakk þegar maður t.d. spilar kínaskák :-)

Thursday, 6 April 2017

Að djúpsteikja

Mér finnst djúpsteiktur matur góður. Nema kannski sveppir - hef reyndar ekki prófað þá djúpsteikta en þeir eru ábyggilega jafnvondir og öðruvísi matreiddir.
Ég er samt alls ekki oft með djúpsteiktan mat. Svo sjaldan reyndar að ég þarf iðulega að gúggla hvernig best sé að gera þetta. Svo ég ákvað að gera bloggfærslu. Ég djúpsteikti nefnilega kjúkling um daginn sem tókst svo hrikalega vel að ég hugsaði með mér að nú myndi ég sko muna hvað ég gerði. 

Það eru til nokkrar mismunandi útfærslur að deigi til að djúpsteikja úr, ég veit ekki einu sinni hversu margar eða hvað þær allar heita, en ég gúggla yfirleitt "tempura" eða "orly". Oft innihalda deigin sódavatn, malt eða bjór. Ég er búin að prófa allar að hafa allt þetta þrennt en mitt vandamál er að ég á þetta yfirleitt ekki til. Svo finnst mér lítill munur á bragðinu. Hér er eldri bloggfærsla um djúpsteiktan fisk í orly.

Um daginn djúpsteikti ég s.s. kjúkling. Ég ætlaði að hafa kjúkling í súrsætri sósu og mér finnst þá betra að djúpsteikja fyrst, hvort sem ég nota kjúkling eða svínakjöt, því annars verður kjötið svo þurrt.

Í deigið notaði ég
1 bolla hveiti
1 bolla maísmjöl (maizena)
1 tsk lyftiduft
smá salt
örlítil sojasósa - ca 2 tsk
kalt vatn þar til þetta varð eins og grautur. 

Ég skar svo kjúklinginn í passlega litla bita, lét alla bitana í deigið og lét þá liggja þar í ca 10 mínútur eða þar til olían varð nægilega heit.
Það er hægt að nota þetta deig (eða sambærilegt) til að djúpsteikja kjöt, fisk, laukhringi, humar, rækju eða hvað sem þér dettur í hug. 

Ég nota bara hvaða þá ódýru djúpsteikingarolíu sem ég finn. Ég veit svo sem ekki mikið um olíur
annað en að sumar olíur eru betri til djúpsteikingar en aðrar, því þær þola meiri hita. Annað veit ég ekki. 
Ég hef olíuna ekki á hæsta hita sem er 12 á minni eldavél, heldur stilli ég hana á ca 9 - 10. Til að athuga hvort olían sé nægilega heit er hægt að setja brauðbita ofan í og ef olían kraumar strax mikið við það og bitinn verður tiltölulega fljótlega brúnn, en olían orðin heit. Önnur aðferð, sem ég er farin að nota meira, er að stinga sushi prjóni úr tré ofan í botninn á pottinum og ef
það koma margar loftbólur í kringum prjóninn, er olían orðin heit. 

Ég hélt einu sinni að allt sem væri djúpsteikt þyrfti að steikjast við háan hita og í stuttan tíma. Það er vitleysa! Það sjá ég þegar ég fylgdist með víetnamskri kunningjakonu djúpsteikja heimagerðar vorrúllur. Hún skellti þeim ofan í, svo settist hún bara niður! Rúllan hefur ábyggilega verið alveg í 10 mínútur ofaní og varð alveg hrikalega góð. 

Mér finnst alveg rosalega gott að djúpsteikja sushi rúllur. Þá þarf fyrst og fremst að passa að það sem er inni í rúllunum sé hráefni sem má hitna, eins og t.d. humar, rækjur, djúpsteiktur kjúklingur eða grænmeti. Ekki lax, eða annar fiskur. Þegar olían er orðin heit (og þarna nota ég pönnu sem olíu sem nær amk upp að miðri rúllu), velti ég rúllunni upp úr deigi og svo upp úr brauðraspi og steiki svo. Þá verður rúllan svo
stökk og brakandi. Nammi namm!
Þegar olían er svo orðin köld, nota ég trekt og sikti til þess að hella henni ofan í flöskuna og svo er hægt að nota hana nokkrum sinnum. Á endanum fer ég með flöskuna fulla af olíu á gámavöllinn.