Pintrest

Sunday, 22 November 2015

Kjúklinga Wellington

Eins og mér finnst nautakjöt Wellington hryllilega gott, þá er nú ekki eins og maður sé að kaupa sér
nautalund sisvona fyrir sunnudagssteik og það bara í nóvember! Kjúklinga Wellington er því svolítið ódýrari útfærsla. Ég rakst á þetta á einhverju vafri á netinu (því auðvitað dettur mér ekkert svona í hug sjálfri) en sú uppskrift var með aðeins fleiri hráefnum en mér finnst gott að hafa bara rauðlauk og sveppi svo ég ákvað að vera ekkert að breyta því. Afhverju að breyta því sem er nú þegar gott? Djók! Auðvitað á maður að prófa eitthvað nýtt.
Þeir sem þekkja mig vita að mér finnst sveppir vondir. Ekki bara vondir heldur algjör viðbjóður. En í mauki við rauðlauk finn ég hvorki sveppabragð né áferðina. Eitthvað hljóta þeir þó að gera blessaðir svo ég hef þá alltaf með.

Það sem þarf:
Smjördeig
Kjúklingabringur
Olía til steikingar
Rauðlaukur (ca 3)
Sveppir (eftir smekk, ég var með uþb. hálfa öskju)
Egg og mjólk til að pensla.

Byrjið á að krydda kjúklingabringur og steikja á pönnu í heilu lagi. Ég var með þrjár bringur, því við vorum þrjú í mat. Ég steikti þær í olíu, á stillingu 7 af 9 í dálítinn tíma. Ekki steikja þær samt alveg í gegn. Takið af pönnunni og geymið.

Næst skerið þið rauðlaukinn og sveppina mjög smátt. Steikið á pönnu við vægan hita. Aftur notaði ég stillingu 7 af 9. Þetta tekur dágóðan tíma og það þarf að hræra annað slagið í svo þetta brenni ekki.

Á meðan er gott að fletja út smjördeigið. Ég notaði eina heila plötu fyrir hverja bringu. Leggjið útflatta plötu á bökunarpappír á pönnu (því það er erfitt að færa þetta á milli eftir að kjúklingurinn er kominn á, án þess að deigið rifni). Setjið ca 2 matskeiðar af laukmaukinu ofan á deigið og leggjið kjúklingabringu þar ofaná. setjið annað eins af mauki ofan á bringuna og jafnvel á hliðarnar ef þið getið. Ég setti bringuna á annan helminginn á deiginu en það er sjálfsagt hægt að setja beint á miðjuna. Gott er að pensla brúnirnar með hrærðu eggi og smá mjólk svo þær límist betur saman eftir að hinn helmingurinn af deiginu er lagður yfir kjúklinginn og þannig er honum pakkað inn.
Penslið yfir allt saman og bakið í ca 25 - 30 mínútur. Berið fram með meðlæti að eigin vali - eða bara ekki neinu :-)
















Sunday, 25 October 2015

Súkkulaðikaka með ítölskum marengs

Ókey, mér datt í hug að gera smá tilraun - sem var þó ekki mikil áhætta. Ég studdist sjúklega góðu ístertunni en sleppti ísnum. Ofan á botninn setti ég hrikalega gott krem úr suðusúkkulaði. Þetta bragðaðist bara alveg ljómandi vel, þó svo að það væri ekkert mjög mikið bragð af marengsinum. EF maður ætti nú rjómasprautu væri hægt að útbúa eitthvað fallegt munstur ofan á áður en marengsinn bakast. Og ef maður ætti nú eitthvað ittlaa eða omaggio dót þá væru myndirnar vafalaust MIKLU flottari :-)
við uppskriftina af

Súkkulaðibotn:
125 gr. smjörlíki
300 gr sykur
2 egg
250 gr hveiti
1 tsk lyftiduft
1/2 tsk natron
1 tsk salt
4 msk kakó
2 1/2 dl mjólk


Þeytið sykur og smjörlíki vel saman, bætið eggjum við og svo öllu hinu. Bakað í ca 30-40 mínútur við 180°c í stóru smelluformi. Kakan er svo kæld. 


Súkkulaðikrem:

150 gr suðusúkkulaði 
50 gr smjör
ca 2 tsk sýróp

Allt sett í lítinn pott og brætt saman. Passið að hræra vel í á meðan svo ekki festist við botninn. Á eftir setti ég pottinn ofan í kalt vatn til að kæla kremið áður en það fór á kökuna. Öllu svo hellt yfir kökuna og henni stungið inn í frysti í ca hálftíma eða á meðan marengsinn er búinn til. 


Marengs:

3-4 eggjahvítur
250 gr sykur
100 gr vatn.

Sjóðið vatn og sykur samn í potti í smástund og stífþeytið eggjahvíturnar á meðan (já og kveikið líka á bakaraofninum um leið. Stillið á hæsta hita bara uppi). Þegar eggjahvíturnar eru orðnar þéttar og sykurvatnið búið að sjóða smástund, er vatninu hellt saman við stífar eggjahvíturnar í mjórri bunu og þeytið á meðan og alveg þar til þetta er orðið kalt. ALLS EKKI STOPPA ÞEYTINGUNA ÞVÍ ÞÁ FELLUR DEIGIÐ. Smyrjið þessu svo á tertuna eða sprautið að vilt. Þetta fer svo inn í heitan ofninn í örfáar mínútur - við erum að tala um bara 2 - 4 eða þar til marengsinn er orðinn ljósbrúnn.







Tuesday, 17 March 2015

Skinkuhorn / pylsuhorn sem ekki þarf að hefast!!


Eruði að grínast með þetta? Afhverju var ekki löngu búið að segja mér að það væri hægt að baka 30 stk pylsuhorn OG 20 stk skinkuhorn á klukkutíma - frá upphafi til ENDA?

Ég er ein af þeim sem gleymi öllum dögum og verð svo alveg geðveikt hissa þegar þeir læðast aftan að mér og birtast bara einn daginn. Þannig hefur það verið með öskudag! Ég hef oftar en ekki verið fram yfir miðnætti að redda grímubúning fyrir strákana.



Þannig var þetta líka í dag. Ég fékk áminningu um að það væri skíðadagur hjá strákunum á MORGUN. Ekki það að ég hafi ekki vitað af því og það var jú alveg þarna einhverstaðar á bakvið en að muna eftir því að skíðadagur þýðir líka mikið nesti? Neibb ekki sjens. Ekki frekar en hin árin. Svo nú voru góð ráð dýr því ég þurfti að redda einhverju miklu en á stuttum tíma. Svo ég ákvað að taka síðustu uppskrift  og aðlaga hana að því sem ég þurfti.

9 dl heitt vatn
6 tsk ger
3 msk sykur

Allt sett í skál, hrært í og svo látið standa í ca 5 mínútur. Eftir þann tíma er farið að freyða vel í þessu. Svo blandar maður

ca 1 kg hveiti - æ ég veit reyndar ekkert hvað ég setti mikið... ég setti bara smá og smá og lét vélina hnoða þar til þetta var passlegt!
2 tsk salt
1 tsk lyftiduft

Hnoðað og svo er þessu skipt í parta - eða maður klípur af til þess að fletja út. Ég byrjaði á pylsuhornunum. Maður fletur deigið út, raðar pylsum ofan á og rúllar upp.

Næst voru skinkuhornin. Ég átti til afgang af Camembert smurosti (geðveikt góður!) í ísskápnum sem ég hrærði saman við smátt skorna skinku og rifinn ost.

Deiginu sem eftir er, er skipt jafnt niður í ca 3 - 4 parta. Flatt út í hring og svo sker maður kross í hringinn og kross aftur þannig að maður er með 8 nokkuð jafna hluta. Skinkuostamauk er sett á breiða endann og svo er rúllað upp frá þeim enda. Penslað yfir með hrærðu eggi og bakað við 180°c þar til þetta er orðið fallega bakað.

Þetta er svooooo gott!
Verði ykkur að góðu!














Sunday, 15 March 2015

Brauð sem ekki þarf að hefast

Hversu mikil snilld er það? Mig langaði til þess að baka brauð til að hafa með bbq kjúklingaréttinum sem var kominn inn í ofninn og þökk sé herra Google þá fann ég þessa snilldar uppskrift sem tók ekki nema um hálftíma að gera. Frá upphafi til enda!!

Þessa uppskrift er hægt að nota til að gera formbrauð, brauðbollur, brauðhleifa eða jafnvel pizzubotn. Athugið að bökunartími getur þá breyst.

2 1/2 bolli heitt vatn
6 msk sykur
3 msk ger
2 msk olía
6 bollar hveiti (í þessa uppskrift notaði ég 5 bolla hveiti + 1 bolli heilhveiti)
2 tsk salt
1 tsk lyftiduft

Heitt vatn, ger, sykur og olía eru sett í skál og hrært í. Látið standa í 5 mínútur. Við það myndast froða ofan á. Næst er þurrefnunum blandað saman við og hnoðað vel og vandlega. Passið að setja ekki alveg allt hveitið strax svo það verði ekki of þurrt.

Þegar búið er að hnoða er hægt að búa til brauðbollur eða setja í form eða gera það sem þið viljið. Penslið yfir með mjólk - ef þið nennið, og bakið við ca 180°c í ca 15 mínútur.

Algjör snilld!

Friday, 30 January 2015

Kjúklinga og beikon langloka

Ég prófaði nýja uppskrift af pastasalati með kjúkling og beikoni sem var alveg sjúklega gott. Uppskriftin af því er hér: http://princesspinkygirl.com/pasta-salad/2/ (aldrei að vita nema ég pósti uppskriftinni af því á íslensku hér seinna.

En allavega, þetta pastasalat er svo sjúklega gott og er sósan þar í lykilhlutverki svo ég ákvað að færa þetta upp á annað plan - ekkert endilega betra plan, bara annað.

Sósan:

ca 3 msk majones
ca 3 msk sýrður rjómi
ca 1/2 tsk paprikuduft
dass af hvítlauksdufti
smá pipar
og aðalgaldurinn: ca 3 msk af Ranch dressingu.

Allt hrært saman og smakkað til.

Steikið beikon eins og þið viljið hafa það. Þar sem ég var að gera fyrir alla fjölskylduna þá steikti ég það í ofni. Það er algjör snilld sérstaklega ef maður þarf að steikja mikið beikon. Setjið næst beikonið á pappír til að þurrka mestu fituna af því.

Næst þarf að steikja kjúklinginn. Ég skar hann í frekar þunnar sneiðar svona þversum. Náði 3-4 sneiðum úr einni bringu (skar svo hverja sneið í tvennt). Æ, skerið þetta bara eins og þið helst viljið!
Kryddið létt og steikið við háan hita á pönnu.

Ég var búin að ákveða að kaupa nýtt baguette brauð en var of sein að ná í bakaríið og ekkert nýtt til í Krónunni svo ég keypti bara frosin pannini brauð sem ég hitaði í mínútugrillinu þar til það var orðið stökkt að utan. Nammi!

Í brauðið setti ég sósu, salat, kjúkling, beikon, rauðlauk og sósu.

Þetta var alveg rosalega gott. Og væri eflaust enn betra með þykkum sneiðum af tómat með.