Í gær var til heimabakað súrdeigsbrauð og þar sem ég sat og borðaði það
helltist yfir mig löngun í sítrónusmjör. Því var svo reddað í dag. Í
hefðbundnu sítrónusmjöri eru egg en þar sem elsti uppáhaldssonurinn er vegan,
þá vildi ég að hann gæti líka borðað þetta. Það er jú hann sem er
súrdeigsbrauðbakstur snillingurinn á heimilinu. Uppskriftina fann ég á netinu
á síðu sem heitir
It Doesn't Taste Like Chicken og ég mæli 100% með henni!
100 gr. sykur
1 msk maíssterkja
118 gr. vegan mjólk (t.d. soja eða möndlu. Ég notaði Oatly)
65 gr. ferskur sítrónusafi (ca 2 sítrónur)
2 tsk. rifinn sítrónubörkur (af ca 1 sítrónu)
1/8 tsk turmerik (valfrjálst, er bara fyrir litinn)
Blandið saman sykri og maíssterkju og pískið saman til að ná sem mestum kekkjum úr sterkjunni. Blandið öllu hinu saman við og hitið við miðlungshita og hrærið stöðugt í á meðan. Ég hitaði þar til þetta fór að sjóða, þá tók ég af hellunni, það tók ca 5-7 mínútur. Hellið strax í krukku. Þetta geymist í kæli í amk 1 viku (Ég hef ekki prófað að loka krukkunni strax og athuga hvort það geymist lengur, svona eins og sultur gera).
Þetta er dásamlega gott með kexi, brauði, með ostum eða bara ofan á köku.