Ég þarf að vera duglegri að setja inn uppskriftir! Ég bara veit það.
Í dag tók ég upp kjúklingabringur án þess að vera búin að ákveða hvað ég ætlaði að elda úr þeim. Eftir smá heilabrot kom það: Kjúklingaborgarar!! Óje! Hef aldrei gert svoleiðis áður (hef hingað til bara stólað á McDonalds) svo það var gúgglað. Endaði svo á uppskrift frá Food Network en afþví að ég á svo erfitt með að fara eftir uppskriftum (aðalega því að ég nenni ekki að vikta allt) þá varð hún pínu, pínu öðruvísi. Eða þið vitið... næstum því alveg eins! Helsti munurinn var að ég var búin að taka upp 4 bringur áður en ég ákvað uppskriftina og því ákvað ég að nota þær allar. Veit ekkert hvað þær voru þungar svo þær voru allar hakkaðar. Ég hakkaði líka laukinn með. Og svo sleppti ég mjólkinni. 4 bringur var allt of mikið fyrir okkur, þetta gerði 9 borgara en það er allt í lagi, restin fór í frysti og verður tekin upp þegar vantar eitthvað fljótlegt.
4 stórar kjúklingabringur
1 lítill laukur eða 1/2 stór
salt (mætti alveg setja 1 1/2 tsk)
pipar
1/4 tsk cayenne pipar
2 bollar brauðrasp
olía til steikingar
Bringurnar eru hakkaðar ásamt lauknum, svo er öllu blandað saman með sleif. Setjið bara uþb helminginn af raspinum út í og geymið restina. Ég notaði bara keyptan rasp og ákvað að láta deigið bíða pínulítið. Það borgaði sig því það þykknaði meira við það. Restin af raspinum er svo sett á disk til að velta borgurunum upp úr fyrir steikingu. Deigið er frekar blautt og klístrað. Maður tekur svo ca 2-3 msk af deigi í lófann og mótar borgara. Má alveg hafa meira eða minna eftir smekk. Þetta er svo steikt á pönnu með olíu á miðlungshita fyrst í ca 5 mínútur á annari hliðinni svo í ca 3 - 4 á hinni. Bætið olíu útá eftir þörfum.
Og þetta er nú allt og sumt! Borðað með hamborgarabrauði, fersku salati, tómötum og hamborgarasósu eða majonesi. Eða bara því sem ykkur langar í.
Ég steingleymdi að taka mynd af tilbúnum borgara í brauði með öllu svo þessi eina af þeim nýsteiktum verður að duga :-)