Pintrest

Sunday, 9 June 2019

Krónhjartarpottréttur

Kjötið léttsteikt
Grænmetið skorið í bita og brúnað létt
Okkur var gefinn bógur af krónhirti um daginn! Þvílík heppni sem það var. En ég hef hvorki smakkað né eldað krónhjartarkjöt áður svo það var allt sett á fullt að finna uppskrift. Flestar uppskriftirnar sem ég fann var með sveppum svo ég var fljót að afskrifa þær nema að ein leit svo ótrúlega vel út að ég ákvað að prófa hana. Hún innihélt kantarellu sveppi og ég ákvað að ég gæti bara tínt þá úr. Mér finnst sveppir sko vondir. En þegar við fórum að versla í matinn, voru þessir sveppir ekki til og ekki heldur vorlaukur sem átti lika að vera í, svo á endanum er rétturinn sem ég eldaði ekki alveg eins og uppskriftin sem ég fann!

Svona endaði þetta:

Ca 800 gr krónhjartarkjöt (eða önnur villibráð)
5 skarlottulaukar
5 dl góður kraftur
2 gulrætur
3 dl rjómi
ca 1/4 blaðlaukur
Rjómi settur út í soðið og svo þykkt með hveiti
1 tsk týttuberjasulta
smá hveiti til að þykkja sósuna

Öllu blandað saman og hitað upp
Þurrkið kjötið og skerið í þunnar skífur. Saltið og piprið og brúnið svo létt á pönnu. Takið svo af pönnunni.
Skerið allt grænmetið í passlega grófa bita og brúnið á pönnu. Hitið vatn með krafti og setjið sultu út í. Öllu er svo blandað saman í potti eða djúpri pönnu og látið malla í smá stund. Tíminn fer aðeins eftir hversu meyrt kjötið er. Ég hugsa að ég hafi soðið þetta í ca 7 mínútur. Ég smakkaði bara einn bitann og fannst hann passlegur! Næst veiðir maður allt kjötið og grænmetið upp (eða hellir soðinu af í pott) og setur rjómann saman við soðið. Smakkið til með salti og pipar. Sósan er látin sjóða smá stund og svo er hún þykkt með hveiti- og vatnsblöndu.

Þetta er svo borðað með soðnum kartöflum og týttuberjasultu.