Pítubrauð:
3 dl.volgt vatn
1 pk. þurrger
1 tsk. salt
1 tsk. sykur
ca.500 gr. hveiti
Best er að nota ekki allt hveitið strax heldur bara um 400 gr og bæta svo frekar við. Deigið er hnoðað og látið lyfta sér í ca.1 klst. Þá er deigið hnoðað aftur og því skift í ca. 8 parta. Athugið að með að skipta í 8 hluta eru brauðin frekar lítil en þá væri bara hægt að hafa þau færri, t.d. 7 eða 6. Bara svo þið hafið þetta í huga. Ég rúlla hverjum parti aðeins upp í kúlu og nota svo kökukefli til að fletja það passlega mikið út eða ca 0,5 cm. Þegar búið er að fletja allt út er hvert brauð steikt á mjög heitri pönnu. Ég nota gamla steypujárnspönnu til þess og hef á næstum því alveg hæsta hita. Það þarf að snúa brauðunum nokkrum sinnum við, eða amk 4 sinnum. Þá fara þau nefnilega að lyftast og við það verða þau hol að innan og ekkert mál verður að fylla þau með gúmmelaði.
Pítusósuna gerði ég svona:
ca 3 msk grísk jógúrt (afþví að ég átti hana, annars hefði ég kannski notað sýrðan rjóma)
ca jafnmikið af majónesi
slatti af Herbes de Provence kryddi (ég notaði frá Santa Maria en veit að það eru til sambærileg krydd frá öðrum framleiðendum sem heita þá svipað).
pínu salt.
Hrærið öllu saman og látið standa. Ég gerði sósuna strax eftir að ég var búin að hnoða deigið í pítubrauðið og bragðið af henni var mun betra þegar hún var aðeins búin að standa. Bragðið er alls ekki svo ólíkt pítusósunni eins og við þekkjum hana á Íslandi en mér fannst samt vanta eitthvað uppá. Kannski meira majó... kannski majoram krydd... þetta verður prófað næst.