Ég fór á matreiðslunámskeið í síðustu viku þar sem við lærðum að gera ýmsan arabískan mat. Alveg rosalega góður matur! Eitt af því sem við gerðum var linsugrautur úr rauðum linsum. Við spurðum hvaðan hann væri (kokkarnir voru frá Sómalíu og Palestínu) og þær sögðu að þetta væri bara arabískt. Fínasta svar það.
Í kvöld gerði ég svo þennan graut - fór samt ekki alveg eftir uppskriftinni og þar sem hann varð svo góður ákvað ég að blogga um hann svo ég gleymi ekki hvað ég gerði öðruvísi. Best að setja inn í sviga það sem stendur í uppskriftinni hvað eigi að vera.
2,5 stk laukur
5 stór hvítlauksrif (10 hvítlauksrif)
1 ferskt engifer, ca 5 cm (2,5)
5 msk ólífuolía
2,5 msk turmerik
5 tsk karrí
2.5 msk Garam masala
480 ml rauðar linsur úr dós (10 dl)
5 teningar grænmetiskraftur
slatti af vatni, kannski 4 dl (15 dl vatn) (ákvað að sjá til með þetta!)
2 dósir (eða fernur reyndar) hakkaðir tómatar (2,5 dósir)
2,5 tsk salt
dass af pipar (1,5 tsk)
safi úr 1 lime (safi úr 2,5 stk lime)
ferskur kóriander
jasmín hrísgrjón (basmati hrísgrjón)
Saxið lauk, hvítlauk og engifer smátt niður og steikið þar til það er mjúkt og glært í potti með olíu. Setjið því næst allt kryddið út í (nema kannski salt og pipar) og steikið áfram í 1 mínútu. Næst fara linsur, grænmetiskraftur og tómatar útí. Suðan er látin koma upp og svo er þetta látið sjóða í 20 mínútur. Linsugrauturinn á að vera álíka þykkur og hafragrautur. Smakkið til með salti, pipar og limesafa. Hrærið í af og til svo það festist ekki í botninum. Bætið við vatni og/ eða grænmetiskrafti ef linsunar draga mikið af vökvanum í sig.
Sjóðið hrísgrjón eftir leiðbeiningum og berið fram með grautnum og stráið ferskum kóriander yfir - ef ykkur finnst hann góður. Við borðuðum þetta úr skálum og með skeið.
Með þessu gerði ég hrikalega gott naan brauð, uppskriftina fann ég hér https://veenaazmanov.com/stove-top-homemade-naan-indian-bread/
540 gr hveiti
2,5 tsk þurrger (eitt bréf)
1 tsk sykur
1 tsk olía
1 tsk salt
1 egg
120 ml hrein jógúrt
180 ml heitt vatn (ca 38°c)
Hrærið saman vatni, olíu, sykri og þurrgeri og látið standa í 5 - 10 mínútur þar til það fer að freyða. Blandið þurrefnunum saman á meðan, svo er öllu blandað saman í einu og hnoðað. Ég nota hrærivélina til að hnoða. Deigið er svo látið standa í amk 1 klst og svo er því skipt í 16 hluta. Fletjið hvern hluta fyrir sig í kringlótt flatbrauð og svo eru þau steikt á heitri, þurri pönnu þannig: steikið í 30 sekúndur, snúið, steikið í 30 sekúndur, snúið. Brauðinu er þannig snúið við þrisvar til fjórum sinnum. Okkur finnst svo voða gott að pensla hvert brauð með bræddu smjöri. Það er geymt undir viskastykki þar til öll brauðin eru tilbúin. Ítarlegri leiðbeiningar, ásamt videói, er að finna á síðunni þar sem ég fann uppskriftina.