Og enn elda ég kjúkling. Við bara fáum ekki leið á honum enda eru til svo ótal margar leiðir til að elda hann. Í kvöld langaði mig í kjúklinganagga en ég er nýbúin að sjá uppskrift af mozzarellastöngum með Doritos svo ég ákvað að prófa að gera það sama við kjúkling.
Ég notaði í þessa uppskrift:
3 kjúklingabringur
1 poki Doritos með nacho cheese (í appelsínugulum poka)
(1 poki var ekki nóg)
2 egg
smá mjólk
hveiti með smá salti útí
djúpsteikingarolía
Skerið bringurnar í hæfilega litla bita, Myljið snakkið smátt - hægt að gera í matvinnsluvél eða setja í ziploc poka og rúlla yfir með kökukefli. Eða eitthvað. Pískið egg og smá mjólk saman í eina skál og setjið hveiti í aðra. Svo tekur maður bitana, veltir upp úr hveiti, næst eggjablöndu og síðast Doritos. Passið að snakkið hylji bitana vel. Raðið á disk. Þetta er svolítið tímafrekt svo það er allt í lagi að byrja svolítið snemma. Ég lét svo olíuna hitna á meðan.
Bitarnir eru svo steiktir í olíunni þar til þeir verða gullinbrúnir, þá eru þeir veiddir upp út og settir á eldhúspappír svo olína renni af. Við borðuðum þetta með frönskum kartöflum, salati og salsa sósu :-)
Þetta verður klárlega gert aftur!