Pintrest

Tuesday, 17 March 2015

Skinkuhorn / pylsuhorn sem ekki þarf að hefast!!


Eruði að grínast með þetta? Afhverju var ekki löngu búið að segja mér að það væri hægt að baka 30 stk pylsuhorn OG 20 stk skinkuhorn á klukkutíma - frá upphafi til ENDA?

Ég er ein af þeim sem gleymi öllum dögum og verð svo alveg geðveikt hissa þegar þeir læðast aftan að mér og birtast bara einn daginn. Þannig hefur það verið með öskudag! Ég hef oftar en ekki verið fram yfir miðnætti að redda grímubúning fyrir strákana.



Þannig var þetta líka í dag. Ég fékk áminningu um að það væri skíðadagur hjá strákunum á MORGUN. Ekki það að ég hafi ekki vitað af því og það var jú alveg þarna einhverstaðar á bakvið en að muna eftir því að skíðadagur þýðir líka mikið nesti? Neibb ekki sjens. Ekki frekar en hin árin. Svo nú voru góð ráð dýr því ég þurfti að redda einhverju miklu en á stuttum tíma. Svo ég ákvað að taka síðustu uppskrift  og aðlaga hana að því sem ég þurfti.

9 dl heitt vatn
6 tsk ger
3 msk sykur

Allt sett í skál, hrært í og svo látið standa í ca 5 mínútur. Eftir þann tíma er farið að freyða vel í þessu. Svo blandar maður

ca 1 kg hveiti - æ ég veit reyndar ekkert hvað ég setti mikið... ég setti bara smá og smá og lét vélina hnoða þar til þetta var passlegt!
2 tsk salt
1 tsk lyftiduft

Hnoðað og svo er þessu skipt í parta - eða maður klípur af til þess að fletja út. Ég byrjaði á pylsuhornunum. Maður fletur deigið út, raðar pylsum ofan á og rúllar upp.

Næst voru skinkuhornin. Ég átti til afgang af Camembert smurosti (geðveikt góður!) í ísskápnum sem ég hrærði saman við smátt skorna skinku og rifinn ost.

Deiginu sem eftir er, er skipt jafnt niður í ca 3 - 4 parta. Flatt út í hring og svo sker maður kross í hringinn og kross aftur þannig að maður er með 8 nokkuð jafna hluta. Skinkuostamauk er sett á breiða endann og svo er rúllað upp frá þeim enda. Penslað yfir með hrærðu eggi og bakað við 180°c þar til þetta er orðið fallega bakað.

Þetta er svooooo gott!
Verði ykkur að góðu!














Sunday, 15 March 2015

Brauð sem ekki þarf að hefast

Hversu mikil snilld er það? Mig langaði til þess að baka brauð til að hafa með bbq kjúklingaréttinum sem var kominn inn í ofninn og þökk sé herra Google þá fann ég þessa snilldar uppskrift sem tók ekki nema um hálftíma að gera. Frá upphafi til enda!!

Þessa uppskrift er hægt að nota til að gera formbrauð, brauðbollur, brauðhleifa eða jafnvel pizzubotn. Athugið að bökunartími getur þá breyst.

2 1/2 bolli heitt vatn
6 msk sykur
3 msk ger
2 msk olía
6 bollar hveiti (í þessa uppskrift notaði ég 5 bolla hveiti + 1 bolli heilhveiti)
2 tsk salt
1 tsk lyftiduft

Heitt vatn, ger, sykur og olía eru sett í skál og hrært í. Látið standa í 5 mínútur. Við það myndast froða ofan á. Næst er þurrefnunum blandað saman við og hnoðað vel og vandlega. Passið að setja ekki alveg allt hveitið strax svo það verði ekki of þurrt.

Þegar búið er að hnoða er hægt að búa til brauðbollur eða setja í form eða gera það sem þið viljið. Penslið yfir með mjólk - ef þið nennið, og bakið við ca 180°c í ca 15 mínútur.

Algjör snilld!