Pintrest

Friday, 27 December 2013

Guðdómlegur ostur

Ég fæ alltaf vatn í munninn þegar ég hugsa um þennan rétt, því hann er alveg guðdómlega góður. Erna vinkona gaf mér að smakka þetta og ég át á mig gat!
Þetta var það eina sem mig langaði í í kvöldmatinn í kvöld. Ég veit ekkert sérstaklega hollt... ég sem ætlaði að fara í pásu í hvítum sykri, hvítu hveiti og geri en hugga mig við að... hmm... ja... mjólk er holl! Ég byrja bara í pásu á morgun!

Í þennan rétt notar maður 1 stóran hvítmygluost. Ég notaði Ljúfling. Smábrauð og sýróp.

Fyrst tekur maður brauð t.d. brauðbollur (svona smábrauð), sker það niður í ca 4 bita og raðar á plötu. dreytir smá olíu yfir og saltar. Þetta er svo bakað í ofni í jah, ca 15 - 20 mínútur við 180°c. Ég tók nú ekki tímann á þessu en þegar brauðið er aðeins farið að gyllast þá er það tilbúið.

Næst græjar maður ostinn. Setjið hann í eldfast mót, setjið smá olíu yfir og svo vel af svörtum pipar og smá salt (ja, dass af salti). Osturinn fer svo inn í ofninn og bakast í einhvern tíma. Aftur tók ég ekki tímann og tók minn ost aðeins of fljótt út, hann var ekki orðinn heitur í gegn en þá var líka bara allt í lagi að setja hann inn aftur.

Maður notar svo brauðstangirnar til að dýfa ofan í ostinn og svo það allra besta - að dýfa öllu dótinu ofan í sýróp, t.d. Maple syrup.

Verði ykkur að góðu!




Wednesday, 4 December 2013

Sjúklega góð ísterta

Þessa uppskrift sá ég í blaði fyrir mörgum árum síðan, en hef bara gert hana þrisvar sinnum. Aðalega vegna þess að það tekur svo langan tíma að gera hana. Þetta er svosem ekkert vesen samt, en maður þarf bara að gera ráð fyrir góðum tíma (nokkrum dögum).


Uppskriftin er s.s. svona:

Botninn er bara uppáhalds súkkulaðikakan ykkar. Ég nota þessa hér:

125 gr. smjörlíki
300 gr sykur
2 egg
250 gr hveiti
1 tsk lyftiduft
1/2 tsk natron
1 tsk salt
4 msk kakó
2 1/2 dl mjólk

Þeytið sykur og smjörlíki vel saman, bætið eggjum við og svo öllu hinu.
Bakað í einu stóru, eða tveimur litlum formum í ca 40 mín við 175°c. Fyrir þessa tertu baka ég þetta í einu stóru smelluformi. Geri það reyndar alltaf því ég á ekki 2 minni!

Þegar kakan er orðin köld þá er hægt að gera ísinn. Hægt er að nota hvaða uppskrift sem er, en mér finnst þessi sérstaklega góð:
Koníaksís:
1/2 l rjómi
5 egg
1/2 bolli sykur
1/4 dl lagað kaffi
100 gr súkkulaði (spænir eða saxað)
1/2 dl koníak.

Þeytið rjómann og geymið. Þeytið sykurinn og eggin í hrærivélinni í u.þ.b. 8 mín, eða þar til massinn er orðinn léttur. Blanið eggjablöndunni varlega saman við rjómann og bætið að endingu kaffi, súkkulaði og koníak við.

Losið tertuna í smelluforminu og festið það svo aftur. Hellið ísnum yfir. Hjá mér verður ísinn ekki alveg jafnþykkur og kakan en það er allt í lagi, það verður líka afgangur af ísnum sem fer bara í box í frystinn. Setjið tertuna svo í frysti.

Þá er það marengsinn:

3-4 eggjahvítur
250 gr sykur
100 gr vatn.

Sjóðið vatn og sykur samn í potti í smástund og stífþeytið eggjahvíturnar á meðan (já og kveikið líka á bakaraofninum um leið. Stillið á hæsta hita bara uppi). Þegar eggjahvíturnar eru orðnar þéttar og sykurvatnið búið að sjóða smástund, er vatninu hellt saman við stífar eggjahvíturnar í mjórri bunu og þeytið á meðan og alveg þar til þetta er orðið kalt. ALLS EKKI STOPPA ÞEYTINGUNA ÞVÍ ÞÁ FELLUR DEIGIÐ. Smyrjið þessu svo á tertuna eða sprautið að vilt. Þetta fer svo inn í heitan ofninn í örfáar mínútur - við erum að tala um bara 2 - 4 eða þar til marengsinn er orðinn ljósbrúnn.

Gott er að láta kökuna standa í uþb 30 mín áður en hún er skorin.
Verði ykkur að góðu!