Pintrest

Thursday, 23 May 2013

Kjúklingasúpa

Þetta er besta kjúklingasúpa sem ég hef smakkað. Fékk þessa uppskrift frá Gullu vinkonu.

3-4 msk olía til að steikja

1 1/2 msk karrý
2-3 hvítlauksrif (meira eða minna eftir smekk)
1 stk blaðlaukur
3 stk paprikur (lit eftir eigin vali)

Þetta er allt skorið og steikt á pönnu - já karrýið með!

100 gr hreinn rjómaostur
1 flaska Heinz Chili Sauce
1 teningur grænmetiskraftur

3 teningar kjötkraftur
1 1/2 - 2 lítrar vatn
1/2 lítri rjómi
salt og pipar

Öllu sullað saman í pott. Smakkið til súpuna. Ég set alltaf salt og pipar alveg síðast því oft finnst mér hún vera passlega bragðgóð án þess að nota það.

6 - 8 kjúklingabringur (fer eftir fjölda matargesta - eða efnahag! Má líka vera steikt hakk, svínagúllas eða jafnvel fiskmeti)

Bringurnar eru skornar í litla bita, steiktar á pönnu og settar í súpuna rétt áður en hún er borin fram. Það fer eftir smekk hvers og eins hvort bringurnar eru kryddaðar við steikingu.

Gott er að bera súpuna fram með rifnum osti, doritos snakki (eða sambærilegu) og jafnvel slettu af sýrðum rjóma. Líka góð eintóm.


Hrært brauð / Artisan brauð

Þessa brauðuppskrift fann ég þegar ég ákvað að gúggla "Best bread in the world"! Já, það er stundum mjög gaman að leita að einhverju sem maður veit í raun ekki hvað er.

Þetta brauð er hrært - ekki hnoðað og er alveg sáraeinfalt. Uppskriftina fékk ég héðan en það er hægt að fá fullt af allskonar uppskriftum ef maður slær "no knead bread" í google.

3 bollar hveiti
1 3/4 tsk salt
1/2 tsk ger
1 1/2 bolli volgt vatn.

Setjið þurrefnin í skál og blandið vatninu saman með sleif. Þetta tekur örfáar mínútur og á að vera klesst sbr fyrstu myndina.

Deigið er nú geymt inni í ísskáp yfir nótt, ég setti plastfilmu yfir skálina en það er líka hægt að hafa þetta í stórri plastdollu með loki ef þið eigið hana til.

Daginn eftir losaði ég hliðarnar á deiginu, stráði smá hveiti yfir og hristi skálina þannig að hveitið fór á allar hliðar. Það er líka bara hægt að sturta deiginu á hveitistráð borð. Næst er að móta stóra kúlu og það er gert með því að strjúka deiginu þannig að maður sléttir það að ofan og dregur allt undir kúluna. Næst skar ég kross í brauðið. Það þjónar einhverjum tilgangi en ég man nú alls ekki hver sá tilgangur var!! En það lítur líka vel út.

Ég lét brauðkúluna hvíla á bökunarpappír í ca 30 mínútur og á meðan hitaði ég ofninn upp í 230°c. Nú kom það erfiðasta það var að ákveða hvernig ég ætti að baka það! Ég ákvað á endanum að nota pott úr pottjárni, með loki sem þolir háan hita í ofni og baka það í honum. Það þarf að hita pottinn í ofninum áður en brauðið fer í hann. Ég stráði smá sesamfræjum og Saltverkssalti yfir. Svo er þetta bakað með loki í ca 30 mínútur. Þá er lokið tekið af og bakað í 10 - 15 mínútur. Þá er það tilbúið. Ef þið eigið ekki til pott til að baka það í, þá bara bakið það á plötu.

Ég er búin að finna fullt af svipuðum brauðuppskriftum á netinu bæði skrifuðum og líka á Youtube (þetta heitir Artisan bread). Ein síðan talaði um að búa til mikið deig og geyma það svo inni í ísskáp, jafnvel í nokkra daga. Á morgnana getur maður svo bara klippt af deiginu hæfilegt magn og bakað. Það er hægt að gera brauðbollur, baguette og jafnvel pizzu með þessari uppskrift. Og það er líka hægt að breyta uppskriftinni t.d. með því að setja heilhveiti í, fræ, krydd eða jafnvel tómata eða ólífur.

Þetta brauð er smá seigt, með harðri skorpu og alveg hrikalega gott!