Pintrest

Tuesday 27 July 2021

Heimagert kjötfars

Mig er búið að langa svo í kjötfars en þar sem við búum í Noregi þá fæst það ekkert út í búð. Að vísu fæst kjötfars í búðum rétt fyrir jól en það er eitthvað bragð af því sem mér líkar ekki. Svo ég ákvað að búa það til sjálf. Ég var fyrir löngu búin að fá uppskrift en miklaði þetta svo fyrir mér að ég lét aldrei verða af þessu fyrr en ég sá hakk á tilboði í búðinni okkar. Þetta var blanda af nauta- og svínahakki, eitthvað sem ég kaupi aldrei en ákvað að kaupa tvo bakka fyrst þeir væru á tilboði og prófa loksins að gera kjötfars. 

Næsta skref var að lesa aðrar uppskriftir og þær eru sko fjölmargar! Ég sá því að það væri engin ein rétt aðferð til að búa til kjötfars og því ákvað ég að gera "mína eigin". Ég notaði matvinnsluvél til að mauka allt en það er líka hægt að nota bara hrærivél (skv uppskriftum á netinu) en ég gæti trúað að þá verði farsið aðeins grófara. Þegar ég var búin að blanda öllu saman prófaði ég að steikja smá slummu á pönnu, bara til að smakka þetta til og vá hvað þetta varð bragðmikið og gott! Alveg eins og ég vildi hafa þetta - og því skrifa ég þessa færslu, svo ég gleymi ekki uppskriftinni!

400 gr. hakk (hægt er að nota hvaða hakk sem er í rauninni)
1/2 laukur, fínt saxaður
2 msk hveiti
2 msk maizena eða kartöflumjöl
2 tsk lyftiduft
2 tsk salt
2 tsk svartur pipar
1/2 gulrót, rifin
ca 2 dl mjólk (meira eða minna eftir smekk)

All hráefnið er sett í matvinnsluvél sem er látin ganga í nokkrar mínútur. Úr þessu sauð ég svo kjötbollur með hvítkáli og bræddu smjöri. Þá dýfir maður tveimur skeiðum í soðið vatnið - svo farsið festist ekki við þær, og mótar svo bollur sem settar eru ofan í vatnið. Munið að salta vatnið. Suðan látin koma upp og þegar hefur soðið í ca 5 mínútur er slatti af hvítkáli settur ofaní pottinn og soðið áfram í ca 3 mínútur. Borið fram með kartöflum og bræddu smjöri. 


 

No comments:

Post a Comment