Pintrest

Sunday 14 March 2021

Kúmenkringlur

 Ég fékk óbeina áskorun... eða ég tók því sem áskorun án þess að viðkomandi hefði nokkurn tíman nefnt mig á nafn, að baka kúmenkringlur. Hér í Noregi finnst mér stundum vanta eitthvað bakkelsi sem er ekki dísætt og ekki bara brauð. Kúmenkringlur koma þar sterkar inní því að ekki bara eru þær góðar eintómar heldur alveg dásamlegar með smjöri og osti, eða bara með grænmeti og soðnu eggi á milli. Sem sagt dásamlegar í nesti. Svo ég hóf að gúggla og ráðfæra mig við bakara því mig langaði bæði í mjúkar og harðar kringlur.
En þar sem að allar uppskrftir sem ég fann á netinu voru með smjöri og

mjólk og mig langaði til að hafa þær vegan, þá ákvað ég bara að trúa bakaranum sem sagði að þetta væri bara "einföld brauðuppskrift í grunninn" og ákvað því að slumpa! Ég slumpa jú alltaf þegar ég baka focaccia brauð og þetta gæti nú ekki verið mikið flóknara. Það sem er mikilvægast - að mínu mati - er að þær séu frekar saltar en sætar og með miklu kúmenbragði. Svo ég slumpaði "meðvitað" þ.e.a.s. ég lagði á minnið hvað ég setti út í svona í tilfelli að þær yrðu góðar! Og OMG hvað þær urðu góðar! Alveg eins og ég vil hafa þær... pínu saltar og með miklu kúmenbragði. Það hefur hins vegar gengið hægt að þurrka þær svo þær verði harðar - en það hlýtur að koma. 

Uppskriftin gefur 7 kringlur ef maður hefur þær um 125 - 130 gr. 


500 gr hveiti
1 bréf þurrger
2 tsk sykur
1.5 tsk salt
2 msk olía
ca 15 gr kúmen (ca 3 msk)
volgt vatn - ég mældi það ekki, en grunar að það hafi verið um 3 dl. 

Þurrefnunum er blandað saman í skál og olíu og volgu vatni helt saman við. Ég nota hrærivél til að hnoða og læt hana ganga í ca 10 mínútur. Setjið svo rakan klút yfir skálina og látið deigið hefast í ca klst. 


Næst er deigið sett á borð og skorið í bita. Ég ákvað að vikta hvern bita svo kringlurnar yrðu jafnar og notaði ég ca 130 gr fyrir hvern bita. Rúllið út í lengu og tengið saman í hring. Gott er að hafa pínu vatn við hliðina til að hjálpa til við að rúlla út (það gengur hægar ef mikið hveiti er á borðinu) sem og við að festa endana saman. Það er samt ekkert því til fyristöðu að búa eitthvað annað til t.d. bara lengjur, fléttu, bollur eða horn. 

Kringlurnar eru látnar hefast í 20 - 30 mínútur áður en þær eru bakaðar í ofni á 220°c í ca 8 mínútur. 




Ef þið viljið hafa kringlurnar harðar þá er betra að baka þær lengi á 160°c þar til þær fá svona fallegan ljósbrúnan lit svo eru þær látnar standa á borði þar til þær þorrna - eða þurrkaðar í ofni á ca 50°c í einn klst. Þið þurfið kannski aðeins að prófa ykkur áfram með þetta - en aðalmálið er bara að þær þorrni alveg í gegn. 

Ég prófaði líka að setja þær í soðið vatn áður en þær eru bakaðar - bara til þess að prófa þetta líka. Það er ekki mikill munur á þeim, þær verða pínu seigar við þetta en alveg jafn góðar. Þetta er pínu meira vesen svo ég held að ég nenni þessu ekki oftar. Og þær verða fallegri þessar sem ekki eru soðnar. 

Soðin kringla er til hægri, venjuleg er til vinsti.

 



No comments:

Post a Comment